Greint var frá því að í Sæby hefðu talningarmenn ruglað saman atkvæðabunkum Einingarlistans og Danmerkurdemókrata þannig að Einingarlistinn fékk skráð 980 atkvæði á meðan Danmerkurdemókratar hafi fengið skráð 104 atkvæði. Þessu hafi átt að vera öfugt farið og færðust því mörg hundruð atkvæði frá rauðu blokkinni og yfir í þá bláu.
Nú er búið að taka gögnin saman og er niðurstaðan sú að þetta hafi ekki áhrif á skiptingu þingsæta.
Jafnaðarmannaflokkur Mette Frederiksen forsætisráðherra fékk 27,5 prósent atkvæða sem svarar til fimmtíu þingsæta. Flokkurinn bætti við sig tveimur sætum og styrkti stöðu sína á þinginu.
Fylgi og skipting þingsæta (innan sviga er fylgi í kosningunum 2019 og svo breyting á þingsætum frá fyrri kosningum):
- Jafnaðarmannaflokkurinn 27,5% (25,9%), 50 (+2)
- Venstre 13,3% (23,4%), 23 (-20)
- Moderaterne 9,3% (nýtt framboð), 16
- Sósíalíski þjóðarflokkurinn 8,3% (7,7%), 15 (+1)
- Danmerkurdemókratar 8,1% (nýtt framboð), 14
- Frjálslynda bandalagið 7,9% (2,3%), 14 (+10)
- Íhaldsflokkurinn 5,5% (6,6%), 10 (-2)
- Einingarlistinn 5,2% (6,9%), 9 (-4)
- Radikale Venstre 3,8% (8,6%), 7 (-9)
- Nýir borgaralegir 3,7% (2,4%), 6 (+2)
- Valkosturinn 3,3% (3,0%), 6 (+1)
- Danski þjóðarflokkurinn 2,6% (8,7%), 5 (-11)
Samkvæmt þeirri niðurstöðu sem kynnt var í nótt tryggði rauða blokkin sér naumasta mögulega meirihluta, níutíu þingmenn, með stuðningi annars þingmanns Færeyinga og beggja þingmanna Grænlendinga.
Frederiksen hefur sagt að hún vilji mynda breiða ríkisstjórn, það er með flokkum sem standa utan blokka eða í hægri blokkinni.