Katrín fór og fylgdist með þriðja keppnisdegi heimsmeistaramótsins í Fischer-slembiskák í dag. Mótið fer fram á Hotel Natura við Nauthólsveg og eru nokkrir af bestu skákmönnum heims samankomnir að tefla á mótinu.
Norðmaðurinn Magnus Carlsen er einn besti skákmaður allra tíma og er fimmfaldur heimsmeistari í íþróttinni. Hann er einn þátttakenda á mótinu og segir Katrín það vera mikinn heiður að hafa fengið að hitta hann.
„Fékk ég að leika fyrir hann fyrsta leikinn sem hann reyndar breytti sem segir allt um mína hæfileika í þessari tegund skákar!“ skrifar Katrín í færslu á Facebook-síðu sinni.
Hún fékk þó aðra tilraun til þess að leika opnunarleik og var það í viðureign í fjórðu umferð Íslandsmóts kvenna í hefðbundinni skák. Þá fékk hún að leika fyrsta leik Iðunnar Helgadóttur. Iðunn, annað en Carlsen, þótti leikur forsætisráðherrans ansi góður og ákvað að vera ekki að standa í því að breyta honum.

Carlsen er kominn í undanúrslit mótsins ásamt Hikaru Nakamura, Ian Nepomniachtchi og Nodirbek Abdusattorov. Þeir fjórir sem urðu eftir í undanriðlunum eru Vladimir Fedoseev, Matthias Blübaum, Hjörvar Steinn Grétarsson og ríkjandi heimsmeistari, Wesley So.
Undanúrslit mótsins hefjast á morgun þar sem Abdusattorov mætir Nakamura og Carlsen mætir Nepomniachtchi.