Liz Truss flutti stutta ræðu fyrir utan Downingstræti 10 áður en hún hélt á fund Karls III konungs til að greina honum formlega frá því að hún hefði ekki lengur þingmeirihluta á bakvið sig og segja af sér. Stuttu síðar gekk Rishi Sunak á fund konungs sem bauð honum að mynda ríkisstjórn.
Sunak er fyrsti asíski maðurinn til að gegna embætti forsætisráðherra. Hann er 42 ára og sá yngsti til að taka við embættinu frá því Pitt yngri varð forsætisráðherra á 18. öld. Sunak er einng fyrsti forsætisráðherrann sem ekki er kristinnar trúar en hann er hindúi af indverskum ættum.

Liz Tuss gat ekki viðurkennt þau mistök sem urðu henni að falli í kveðjuræðu sinni en enginn hefur setið skemur í stól forsætisráðherra Bretlands en hún eða 7 vikur.
„Eftir embættistíð mína er ég sannfærðari en áður að við verðum að vera djörf þegar við mætum þeim krefjandi verkefnum sem blasa við,“ sagði Truss.
En það var djörfung hennar í efnahagsmálum með tillögum um ófjármagnaðar skattalækkanir upp á 62 milljónir punda á sama tíma og ríkissjóður Bretlands er stórskuldugur sem varð henni að falli.

„Við getum einfaldlega ekki leyft okkur að vera lágvaxtarland á sama tíma og ríkið tekur æ stærri hluta af þjóðartekjum okkar," sagði Truss föst á sínu áður en hún hélt af stað á fund konungs til að segja af sér rúin öllu trausti. Aðgerðir hennar settu markaði á annan endann, vextir hækkuðu, pundið féll og húnsæðiskostnaður óx.

Rishi Sunak sem sagði af sér embætti fjármálaráðherra í aðdraganda afsagnar Borisar Johnsons í sumar gekkst hins vegar við mistökum ríkisstjórna Íhaldsflokksins að undanförnu. Bretar stæðu frammi fyrir mikilli efnahagskreppu vegna eftirmála Covid og stríðsins í Úkraínu.
„En ákveðin mistök voru gerð. Ekki af illum vilja, en mistök engu að síður. Ég hef að hluta til verið valinn leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra til að leiðrétta þau mistök,“ sagði Sunak.
En í nýlegri úttekt Financial Times kemur fram að efnahagskreppuna megi að stórum hluta rekja til Brexit. Íhaldsmenn og flestir stjórnmálamenn aðrir í Bretlandi mega hins vegar ekki heyra á þá hlið mála minnst og einblína á faraldurinn og Úkraínustríðið.