Guðlaugur Þór Þórðarson staðfesti fyrirkomulag rjúpnaveiða árið 2022 í dag. Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að veiðitímabil rjúpu verði frá 1. nóvember til 4. desember í ár. Heimilt verði að veiða rjúpu frá föstudegi til þriðjudags, frá kl. 12 þá daga sem veiði er heimil og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan birtu nýtur.
Um er að ræða svipaðar reglur og á síðasta tímabili en þá var ráðlögð veiði aðeins tuttugu þúsund fuglar.
Biðlar til veiðimanna að sína hófsemi
Guðlaugur biðlar til veiðimanna að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi, en slæmt tíðarfar í vor og sumar sé líklegasta skýringin á viðkomubrestinum. Ráðherra hvetur veiðimenn því til að flykkjast ekki á Norðaustulandið til veiða. Þá er ítrekað að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra.
„Ég hef lagt áherslu á að Umhverfisstofnun setji í forgang að hraða vinnu við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpuna og að á grundvelli hennar verði fyrirkomulag veiða í framtíðinni ákveðið,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.
Þar segir að fyrir liggi tímasett verkáætlun um gerð stjórnunar- og verndaráætlunarinnar. Samkvæmt henni sé gert ráð fyrir miklu samráði og samtali við hagsmunaaðila og að áætlunin verði tilbúin til kynningar um miðjan maímánuð árið 2023.