Umfjöllun og viðtöl: Ionias - ÍBV 21-20 | Grikkirnir unnu fyrri leik liðanna

Einar Kárason skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fjögur mörk fyrir ÍBV í dag.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fjögur mörk fyrir ÍBV í dag. vísir/hulda margrét

Leikurinn í dag var heimaleikur Grikkjanna þrátt fyrir að vera spilaður í Vestmannaeyjum. Síðari leikur liðanna fer fram á morgun sunnudag.

Einvígið fór rólega af stað og var hraðinn í leiknum ekki mikill. Liðin skiptust á að koma boltanum í netið á milli þess sem sóknir fóru forgörðum og liðin misstu boltann frá sér. Eftir stundarfjórðungsleik var staðan 4-6, ÍBV í vil en munurinn milli liðanna í fyrri hálfleik varð aldrei meiri en þrjú mörk.

Þegar líða tók á síðari hálfleikinn náði Ionias að jafna leikinn í stöðuna 10-10 áður en þær skoruðu sitt ellefta og komust yfir í fyrsta skipti í leiknum. Þá var skammt eftir af hálfleiknum en þrátt fyrir dapra spilamennsku heilt yfir enduðu Eyjastúlkur hálfleikinn vel og skoruðu þrjú mörk gegn engu. Hálfleikstölur því 11-13 og ÍBV með góðar lokamínútur að baki til að byggja á í síðari hálfleiknum.

Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri. Grikkirnir byrjuðu betur og skoruðu fyrsta markið. ÍBV svaraði og Ionias setti annað. Þá hinsvegar var skrúfað fyrir allan sóknarleik Grikkjana sem skoruðu ekki næst mark fyrr en eftir fjörtíu og níu mínútna leik. Tæplega stundarfjórðungur milli marka.

Fyrsta markið opnaði flóðgáttirnar og fimm mínútum síðar var ekki nema eins marks munur, 18-19. Grikkirnir voru hvergi hættir og bættu við þremur mörkum gegn einu marki ÍBV og niðurstaðan því eins marks sigur Ionias í fyrri leik liðanna.

Af hverju vann Ionias?

Þær gengu á lagið undir lok leiksins eftir að hafa verið fjórum mörkum undir. Þeim gekk illa að skora en á meðan sóknarleikur ÍBV var engu að skila sáu þær möguleikann á því að sækja sigur, loks þegar stíflan brást. 

Hverjar stóðu upp úr?

Varnir beggja liða stóðu upp úr í fyrri hálfleiknum ásamt markvörðum. Magdalini Kepesidou í marki Ionias varði sextán bolta. Markahæst þeirra var Natasa Krnic með sjö mörk.

Marta Wawrzynkowska varði átta bolta í marki ÍBV en hornamaðurinn knái, Harpa Valey, Gylfadóttir, var atkvæðamest með fimm mörk.

Hvað gekk illa?

Á sama tíma og hægt er að hrósa varnarleik beggja liða var sóknarleikur þeirra ekki í þeim gæðaflokki sem við eigum að venjast í Evrópu. 

Hvað gerist næst? 

Síðari leikur liðanna fer fram klukkan 14:00 á morgun, sunnudag.

Sigurður: Færanýtingin klúðrar leiknum

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV.Vísir/Vilhelm

Þjálfari ÍBV, Sigurður Bragson, var nokkuð brattur eftir leik þrátt fyrir tap. ,,Þetta var hörkuleikur. Rosalega jöfn lið og þetta var spennandi. Við koksum síðasta korterið sem varð til þess að við töpuðum leiknum. Fram að því fannst mér við flottar. Ég held þetta verði svipaður leikur á morgun, leikur jafnra liða."

,,Mér fannst við allt í lagi í fyrri hálfleik, það tapast nokkrir boltar en við vorum fínar. Ef maður er stressaður myndar það spennu og smá hræðslu. Það sem klúðrar leiknum er færanýtingin. Það er allt svo stíft og við vorum yfirspenntar. Ég get ekki skammað neinn fyrir það en við verðum að vera meira kúl. Leikurinn tapast á því að við nýtum ekki færin."

Grikkjunum gekk illa að skora mörk í síðari hálfleiknum gegn sterkri vörn

,,Þær skora ekki nema tvö mörk á okkur fyrstu fimmtán mínúturnar í síðari hálfleik. Við ætluðum að byggja og þar á að koma móment þar sem við eigum að geta byggt upp forskot, en það kemur ekki. Við brennum af dauðafæri á eftir dauðafæri. Vorum að spila ágætlega, ekkert frábærlega, en við vorum að fá færi en skorum ekki. Þegar vörnin er svona og markvarslan fín þá verðum við að nýta það. Við töluðum um að reyna að keyra á þær en við náðum ekki neinu auðveldu hraðaupphlaupsmarki."

Átta-þrjú kafli undir lokin

,,Mér fannst hún koma flott inn þessi númer ellefu (Natasa Krnic). Hún tók yfir sóknarleikinn og skorar fjögur mörk. Við spiluðum sömu vörn en náðum ekki að stöðva hana. Það var ekkert óvænt en hún kemur bara flott inn og skorar þessu mörk. Eftir leikhléið breytist leikurinn og við getum ekki keypt okkur mörk. Ég var að reyna að dreifa og fá nýja leikmenn inn en það gekk ekkert. Það breytist í raun ekkert en þessi stelpa kemur ógeðslega sterk inn í restina."

,,Ég sagði inni í klefa að núna strax byrjar endurheimt og við sáum hvernig þær fögnuðu. Það er gott fyrir mig og okkur. Það setur blóð á tennurnar hjá okkur. Auðvitað hefði ég viljað vinna en það er bara eitt mark á milli. Ég hefði líka verið smeikur hefði ég unnið með einu. Þetta er galopið," sagði Sigurður.

Sasa: Eitt mark í handbolta er ekkert

,,Þessi Eyja er gullfalleg og landið sömuleiðis, en það er kalt. Hér var tekið á móti okkur og allir brosandi," sagði Sasa Zivulovits, þjálfari Ionias. ,,Fyrir okkur var þetta fyrsti erfiður leikurinn í keppninni. Það var ekki mikið skorað í leiknum. Við spilum góða vörn og markvarslan góð sömuleiðis. Við sýndum mikinn karakter með góðri spilamennsku."

,,Markvarslan gefur okkur trú á því að við getum unnið leikinn. Magdalini Kepesidou er einn besti markvörðurinn í Grikklandi. Hún gaf liðinu mikið í dag."

,,Við bíðum og sjáum til með morgundaginn Það kemur allt í ljós. Við reiknum með svipuðum leik og í dag og þurfum að bjóða upp á sömu vörn. Eitt mark í handbolta er ekkert, en sálfræðilega gefur sigurinn okkur mikið. Á morgun er nýr leikur, staðan núll-núll. Þessu einvígi er ekki lokið en við verðum tilbúin á morgun," sagði Sasa að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira