Í færslu á vef Veðurstofunnar segir að rennslið úr Grímsvötnum nálgist nú 300 rúmmetra á sekúndu en íshellan þar hefur sigið um sjö metra. Vöxturinn er hægari en reiknað var með í upphafi og nú er talið að rennslið nái hámarki annað kvöld eða aðfaranótt fimmtudags. Fyrst var talið að það næði hámarki í dag.
Reikna má með því að það taki hlaupvatn um sólarhring að renna undir Skeiðarárjökul frá Grímsvötnum og niður í farveg Gígjukvíslar við þjóðveg 1.
Enn sem komið er er lítil sem engin skjálftavirkni í eldstöðinni við Grímsvötn og enginn gosórói hefur mælst. Veðurstofan, ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands munu þó halda áfram að vakta hana og birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður.