Hersveitir Úkraínu hafa náð gífurlegum árangri í héraðinu á undanförnum dögum og rekið Rússa frá fjölmörgum bæjum og þorpum þar.
Kirill Stremousov sagði þó í samtali við RIA fréttaveituna, sem er í eigu rússneska ríkisins, að undanhaldið, sem hann kallaði endurskipulagningu, væri taktískt og verið væri að undirbúa árásir á Úkraínumenn. Hann sagði einnig að sókn Úkraínumanna hefði verið stöðvuð og hún hefði kostað þá fjölmarga hermenn.
Animated GIF showing progress of the Ukrainian counteroffensive in Kherson Oblast over the past 72 hours for @TheStudyofWar.
— George Barros (@georgewbarros) October 5, 2022
Ukrainian forces have liberated over 1000 square kilometers in north Kherson over the past 3 days. https://t.co/bIb2tF61Xh pic.twitter.com/BU6w8IghZA
Stremousov virðist vera að fegra hlutina nokkuð en Úkraínumenn virðast hafa stökkt Rússum á flótta í Kherson á undanförnum dögum og er óvíst hvar Rússar ætla að mynda nýja varnarlínu og hvort þeir hafi yfir höfuð burði til þess.
Sjá einnig: Rússar á undanhaldi í suðri
Úkraínumönnum hefur einnig vegnað mjög vel í norðausturhluta Úkraínu þar sem þeir hafa einnig frelsað bæi og byggðir.
Tvö hundruð þúsund nýir hermenn
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, tilkynnti í gær að búið væri að kveðja tvö hundruð þúsund menn í herinn eftir að herkvaðning hófst í síðasta mánuði. Shoigu sagði þjálfun þeirra hafna en fréttir hafa borist af því að Rússar hafi sent alfarið óþjálfaða og illa búna menn sem hafa verið skikkaðir til herþjónustu til að fylla upp í raðir Rússa á víglínunum í Úkraínu.
Einn sérfræðingur sagðist í samtali við Wall Street Journal hafa séð vísbendingar um að Rússar hefðu sent lítið þjálfaða menn til herdeilda sem hefðu orðið verulega illa út. Það hjálpi Rússum lítið sem ekki neitt í að auka hernaðargetu þeirra.
Tvær erfiðar leiðir í boði
Aðrir segja Rússa eiga í ákveðnum vandræðum. Þeir geti ákveðið að senda lítið þjálfaða menn á víglínurnar til að bæta varnir sínar og reyna að stöðva sóknir Úkraínumanna. Þessi leið myndi líklegast skila Rússum litlum árangri.
Hinn kosturinn er að Rússar gætu beðið til næsta árs. Sá tími yrði þá notaður til að þjálfa mennina vel og búa þá einnig vel fyrir komandi átök. Gallinn við það er að í millitíðinni gætu Úkraínumenn haldið áfram að reka Rússa frá stórum hlutum Úkraínu. Erfitt að segja til um hvert ástand rússneska hersins yrði þá.
Grunnþjálfun í rússneska hernum tekur um þrjá til fjóra mánuði, við hefðbundnar kringumstæður. Rússar hafa þó misst marga af sínum reyndustu hermönnum, sem yrðu bestir í að þjálfa nýja hermenn á skjótum tíma, eða Rússar hafa ekki kost á því að flytja þá menn af víglínunum. Í einhverjum tilfellum hafa borist fregnir af því að menn sem skikkaðir voru til að ganga í herinn í herkvaðningunni séu að þjálfa aðra óreynda menn.
Allir þurfa á endanum hvíld
Einnig er erfitt að segja til um hve mikla getu Úkraínumenn hafa til að halda út miklum árásum á Rússa til lengri tíma. Það veltur á mannaforða, vopnaforða, birgðaneti Úkraínumanna, baráttuanda og mörgum öðrum þáttum.
Úkraínumenn virðast þó ekki eiga við manneklu að stríða því um helgina tilkynnti herforingjaráð Úkraínu að hætt yrði við árlega herkvaðningu þetta árið.
Flest vopn Úkraníumanna koma um þessar mundir frá Bandaríkjunum og öðrum bandamönnum í Austur-Evrópu. Úkraínumenn hafa einnig lagt hald á mikið magn hergagna frá Rússum.
Sjá einnig: Bandaríkjaforseti setur tugi milljarða í hernaðaraðstoð
„Eitt það erfiðasta er að vita hvenær það þarf að stoppa,“ sagði einn sérfræðingur við Washington Post. Hann sagði góðan árangur eðlilega fela í sér mikla aukningu í baráttuanda en það kæmi alltaf að því að menn gætu ekki meir og þyrftu hvíld.