Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.
Sex konur innan Digranes- og Hjallaprestakalls sökuðu séra Gunnar um kynferðislega áreitni í fyrra en óháð teymi þjóðkirkjunnar komst að þeirri niðurstöðu nýverið að af þeim 48 atvikum sem þau hefðu til skoðunar hefði séra Gunnar orðið uppvís að ósæmilegri háttsemi í tíu tilvikum.
Að mati teymis þjóðkirkjunnar varð Gunnar tvisvar uppvís af orðbundinni kynferðislegri áreitni gagnvart tveimur þolendum og í þremur tilvikum varð hann uppvís af orðbundinni kynbundinni áreitni gagnvart tveimur einstaklingum.
Hann var áminntur af biskup í kjölfarið og lét af störfum en Valgerður Snæland Jónsdóttir, formaður sóknarnefndar Digraneskirkju, greinir frá því í samtali við Fréttablaðið í dag að sóknarnefnd kirkjunnar vilji fá hann til starfa aftur. Mikið uppbyggingarstarf sé fyrir höndum en kirkjan muni blómstra.
Á sama tíma sakar Sigríður Sigurðardóttir, kirkjuvörður í Digraneskirkju, Valgerði um andlegt og líkamlegt ofbeldi á vinnustað en hún lýsir því í samtali við Fréttablaðið að Valgerður og önnur kona hafi meðal annars kreist hana á milli sín. „Mig langaði helst að brenna fötin mín,“ segir Sigríður.
Umrætt atvik hafi átt sér stað í mars en hún haft samband við kirkjuna í lok mars og farið í skýrslutöku í síðustu viku. Hún sé nú komin í veikindaleyfi vegna málsins.
Að því er kemur fram í frétt Fréttablaðsins neitaði Valgerður að tjá sig um þær ásakanir en að sögn Sigríðar sé mikið uppnám í Digraneskirkju.