Rauð viðvörun var í gildi á Austurlandi á laugardag og sátu til að mynda tugir ferðamanna fastir í Möðrudal en veður var einnig mjög slæmt á Suðurlandi. Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, greindi frá því í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun að enn ætti eftir að ná almennilega utan um tjónið.
„Við vitum svo sem sirka hversu margir bílar fóru mjög illa, það er að segja brotnuðu rúður og voru bara óökuhæfir eftir fárviðrið. Þeir voru fjórir eða fimm en síðan eru fullt af bílum sem fengu á sig mikinn sandblástur. Það voru kannski ekki brotnar rúður og slíkt en eru bara með ónýtt lakk og annað. Þetta eru eitthvað í kringum fimmtán bílar,“ sagði Steingrímur.
Milljóna króna tjón á hvern bíl
Bæði bílaleigan og viðskiptavinirnir bera kostnaðinn við tjónið en í tilfellum þar sem viðskiptavinir eru með sand- og öskufokstryggingu lendir tjónið á bílaleigunni. Altjón á bíl geti numið tveimur til þremur milljónum króna en meta þurfi hvert tilfelli fyrir sig.
Hann tekur sem dæmi Mercedes-Benz bíl sem skemmdist í fárviðrinu en nýr bíll kostar í kringum sautján til átján milljónir og tjónið þar með upp á fjórar eða fimm milljónir. Miðað er við að viðskiptavinurinn greiði þó ekki meira en milljón.
„Mér sýnist alla vega miðað við þær upplýsingar sem við erum með núna, þá eru svona tveir þriðju að lenda á okkur og einn þriðji á kúnnum, sem við eigum síðan eftir að innheimta. Það gengur nú misvel af því að það er engin launung að það er ekkert auðvelt að sitja fyrir framan viðskiptavin sem lendir í svona fárviðri og reyna að rukka hann um háar fjárhæðir,“ segir Steingrímur.
Reynt sé að innheimta kostnaðinn áður en fólk fer úr landi en annars sé reynt eftir fremsta megni að vinna með viðskiptavinum og tryggingarfélögum þeirra.
„Í sumum tilfellum þá er þetta fólk tryggt erlendis og fær það bætt, og við erum í samstarfi og samskiptum við ferðaskrifstofurnar sem hafa selt þeim ferðina. Þannig við reynum að vinna þetta eins mjúkt eins og hægt er því þetta er náttúrulega bara ömurlegt fyrir alla aðila, bæði þá sem lenda í þessu og svo okkur,“ segir Steingrímur.