Tass segir frá þessu og hefur eftir Alexander Brechalov, ríkisstjóra í Udmurtia, að árásarmaðurinn hafi komist inn í grunnskólann, skotið að minnsta kosti tvo öryggisverði, tvo kennara og sjö börn til bana.
Um er að ræða skóla númer 88 í borginni þar sem í eru börn í fyrsta til ellefta bekk grunnskóla. Brechalov og lögreglu segja að árásarmaðurinn eigi svo að hafa skotið sjálfan sig.
Búið er að rýma skólann og girða af svæði í kringum hann. Lítið hefur verið gefið upp um árásarmanninn eða ástæður árásarinnar að svo stöddu, en rússneskir fjölmiðlar segja hann hafa verið 25 ára.
Izhevsk er borg vestur af Úralfjöllum, um þúsund kílómetra austur af Moskvu. Íbúar eru um 640 þúsund talsins.