Veðurviðvaranir eru í gildi fyrir allt landið næsta sólarhringinn. Búist er að versta veðrið verði á Austfjörðum, þar sem hin sjaldgæfa rauða veðurviðvörun er í gildi frá hádegi á morgun fram á kvöld.
Eins og kom fram á Vísi fyrr í kvöld má búast við að meðalvindur á sunnanverðum Austfjörðum verði allt að 33 metrar á sekúndu. Vindhraði í hviðum getur orðið töluvert meiri. Miklar líkur eru taldar á foktjóni, grjótfoki og tjóni á lausamunum
Björgunarsveitir standa að venju vaktina og á Austurlandi er undirbúningurinn þegar hafinn.
„Sveitir hafa verið að skella jeppunum á vetrardekk og huga að óveðursbúnaði, hefðbundnum. Það sem menn hafa áhyggjur hérna niðri á fjörðum er foktjón. Það sem maður er að vona að menn meðtaki þessar spár og komi trampólínum og garðhúsgögnum í skjól,“ segir Sveinn Halldór Oddsson Zoëga, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á Austurlandi, í samtali við Vísi.
Sú svæðisstjórn vaktar svæðið frá Djúpavogi að Vopnafirði. Von er á norðan eða norðaustanátt, sem Austfirðingar þekkja að getur verið skæð.
„Já, þetta er slæm átt á einverjum stöðum að minnsta kosti. Það verður oft byljótt og þá er fjandinn laus,“ segir Sveinn Halldór.
Flestir líklega ennþá á sumardekkjum
Sem fyrr segir er rauð viðvörun í gildi fyrir Austfirði. Viðvörunin er appelsínugul fyrir Austurland að Glettingi sem og Norðurland eysta. Þar hafa menn áhyggjur af því að það muni snjóa á fjallvegum.
„Það eru vissar áhyggjur að þetta gæti verið erfitt á fjöllunum, Möðrudalsöræfum og eins útlit fyrir að það verði lokað yfir Fagradalinn og yfir Fjarðarheiði og mögulega norður úr, yfir Möðrudalsöræfin,“ segir Sveinn sem bendir á að flestir séu ennþá á sumardekkjum, enda er þessi fyrsta haustlægð haustsins óvenju snemma á ferðinni.
Íbúar og ferðalangar á svæðunum sem talið er að veðrið verði hvað verst eru hvattir til að vera lítið á ferðinni á morgun. Trampólin og aðrir lausamunir eiga að vera á góðum stað.

„Það er lykilatriði. Svo er auðvitað bara eins og vanalega, byggingarsvæðin og lausamunir úti við.“
Sveinn, sem búsettur er í Neskaupstað, segist hafa tekið eftir því í dag að Norðfirðingar hafi byrjað að undirbúa sig undir hvellinn.
„Jájá, það hefur snarfækkað trampólinum í görðum finnst mér. Svo eru menn að koma þeim ferðahýsum sem enn eru utandyra í var. Menn virðast nú hafa, einhverjir, meðtekið skilaboðin. Menn þekkja þessi veður hér og vita hvað þau geta verið skæð.“