Haukar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, misstu niður fimm marka forskot í síðari hálfleik en sýndu karakter undir lokin þegar þeir tryggðu sér stigin tvö í erfiðri stöðu.
„Adam var frábær í vörn og kemur í sóknina í restina og kemur með nokkur góð mörk. Atli Báru kemur af bekknum sterkur inn og hjálpar mikið og þetta skipti allt máli. Í restina þá snerist þetta bara um karakter því það var ekkert með okkur nema bara klukkan.“
Stefán Huldar Stefánsson kom inn í markið hjá Haukum um miðjan síðari hálfleik. Hann byrjaði rólega en varði nokkur skot alveg undir lokin og tryggði Haukum stigin tvö.
„Við geymum hann þar til síðast. Þetta var frábær innkoma hjá honum og hann varði allavega réttu skotin í kvöld.“
Sóknarleikur Hauka var bitlaus lengi vel í síðari hálfleik en varnarlega stóðu þeir vel undir lokin, þá sérstaklega í undirtölu.
„Við vorum með tvo leikmenn sem geta spilað í miðvörninni og þess vegna fórum við í 5-1 vörn og hún var í raun betri en 6-0 vörnin okkar. Við reyndum aftur að ræsa 6-0 í seinni hálfleik en síðustu tuttugu mínúturnar spiluðum við 5-0 vörn, það var ekkert annað í boði.“
Það hefur verið mikið rætt um óvænt Hauka gegn ÍR í síðustu umferð og afar mikilvægt í því ljósi fyrir Hauka að ná að klára leikinn í kvöld.
„Það var gríðarlega mikilvægt útaf því að síðustu tuttugu mínúturnar voru svona erfiðar hjá okkur. Það var mjög sterkt karakterslega að ná þessu í gegn og halda þessu út. Stefán kemur inn af bekknum og á lykilvörslur, það var helvíti gott,“ sagði Rúnar að lokum.