Fljótlega eftir að nýr þjóðminjavörður var ráðinn án auglýsingar óskaði Félag fornleifafræðinga eftir fundi með ráðherra og ráðuneyti um málið því félagið telur framkvæmd ráðningarinnar ekki hafa verið „í anda laganna“. Í hádeginu á mánudag mun félagið funda með ráðherra. Fréttastofa ræddi við Gylfa Björn Helgason í hádegisfréttum Bylgjunnar.
„Við vonum bara að sá fundur verði upplýsandi. Við munum náttúrulega ýta á ráðherrann og reyna að komast að því hvers vegna hún fór í þessa vegferð, að skipa þjóðminjavörð án auglýsingar.“
Gylfi segir að þau svör sem ráðherra hafi gefið hingað til hafi hvorki verið nægilega góð né skýr.
„Hún segir að það hafi farið fram ákveðin vinna innan ráðuneytisins og að út hafi verið kastað ákveðið net og síðan hafi verið valið úr þessu neti hverjir væru bestir til að gegna þessari stöðu. Ég held að fréttir undanfarið sýni að þessi vinna hafi ekki verið neitt sérstaklega vel unnin. Það hefur komið í ljós mikil óánægja með starfshætti þeirrar manneskju sem var ráðin á þeim vinnustað sem hún var á áður. Þannig að maður setur spurningamerki við þetta; hverjir voru í þessu neti sem ráðuneytið kastaði og hversu djúp var sú vinna um það hversu hæfir einstaklingarnir voru?“
Bitastæðar stöður séu ekki á hverju strái innan fagsins.
„Ég myndi segja að fólk sé gramt. Þarna er einhver samblanda af því og ákveðnu vonleysi. Þessi staða hefur ekki verið auglýst í rúm tuttugu ár. Þetta er ein stærsta staðan í safnastarfi á Íslandi. Hún er stefnumótandi. Þetta er okkar „seðlabankastjóri“, þetta er okkar „útvarpsstjóri“. Þetta er stór staða og fólk hefur beðið í áraraðir og menntað sig sérstaklega til að eiga möguleika á að fá svona stöðu.“
Á fundinum hyggst Gylfi fara fram á skýr svör.
„Réttasta leiðin í þessu væri að draga skipunina til baka og byrja bara upp á nýtt.“
Félag fornleifafræðinga sendi Umboðsmanni Alþingis ábendingu um málið en umboðsmaður tekur ekki mál til umfjöllunar sem þegar eru til skoðunar hjá þinginu og sérstaklega ekki þau sem stjórnskipunar og eftirlitsnefnd hefur til skoðunar.