Leikur Dusty og Viðstöðu fór fram í Inferno og vann Detinate hnífalotuna fyrir Dusty. Dusty hóf því leikinn í vörn en í Inferno kortinu kemur það sér afar vel fyrir vappann.
Detinate var sleipur og nældi í skammbyssulotuna fyrir Dusty, en lið Viðstöðu jafnaði með þrefaldri fellu frá Blazter til að komast á sprengjusvæðið. Mozar7 og Allee komu Viðstöðu svo yfir með góðu samspili og fylgdu því vel eftir í næstu lotu. 3–1 fyrir Viðstöðu.
Þegar bæði lið gátu vopnast fór þó að halla undan fæti hjá Viðstöðu. Dusty stillti upp þéttri vörn með Thor á vappanum og StebbaC0C0 á riffli. EddezeNNN hélt sprengjusvæðunum vel og Viðstöðu gekk illa að komast þangað.
Ás frá StebbaC0C0 í elleftu lotu innsiglaði yfirburði Dusty sem fóru inn í síðari hálfleikinn með gott forskot.
Staða í hálfleik: Dusty 10 – 5 Viðstöðu
Sóknarleikur Dusty var engu síðri en vörnin. Lið Viðstöðu var stöku sinnum nálægt því að bjarga lotum fyrir horn en allt kom fyrir ekki. Með góðum hand- og reyksprengjum gat Dusty verið nokkuð dýnamískt og lék StebbiC0C0 á als oddi til að tryggja liðinu sinn annan sigur á tímabilinu.
Lokastaða: Dusty 16 – 5 Viðstöðu
Næstu leikir liðanna:
- Ármann – Dusty, þriðjudaginn 27/9, klukkan 20:30
- Breiðablik – Viðstöðu, fimmtudaginn 29/9, klukkan 21:30
Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.