Farið var sviðið á nýjum þingvetri í Íslandi í dag í gær og einnig fjallað um margt annað en hér er vísað til. Umræður Sigríðar og Gunnars má sjá í innslaginu hér að ofan, þær hefjast snemma í myndbrotinu.
Gert er ráð fyrir að 89 milljarða króna halli verði á heildarafkomu ríkissjóðs á næsta ári. Sigríður Andersen segir þetta vekja áhyggjur.
„Skuldir ríkissjóðs virðast komnar á par við það sem var eftir hrun. Mér hugnast það ekki; Gunnar Smári getur líklega lagt niður flokkinn sinn með þessu áframhaldi; við erum að stefna í mikil ríkisútgjöld, alltof mikil að mínu mati. Það hefði mátt vera þarna meira aðhald,“ segir Sigríður.

Á móti segir Gunnar Smári: „Eins og þetta er kynnt er Covid búið og við komin út úr því. Samt er 90 milljarða gat. Hvað þýðir það? Annaðhvort þarftu, Sigríður myndi vilja það, skera niður um 90 milljarða, það er gríðarlegur niðurskurður. Eða hækka skatta og sækja til þeirra sem hafa auðgast á bólunni.“
Sigríður segir aftur á móti útilokað fyrir hagkerfi að skattleggja sig til hagsældar. „Því miður gengur þetta frumvarp nokkuð langt í að setja nýja skatta,“ segir Sigríður.
Gunnar Smári segir frumvarpið ekki fara þá leið að sækja skatta til þeirra sem hafa auðgast. „Ef við skoðum venjulegt fólk í basli, sem til dæmis flúði Reykjavík til að kaupa sér húsnæði á Akranesi. Seðlabankastjórinn er að hækka vaxtagreiðslurnar á þetta fólk. Svo kemur Bjarni Ben, lækkar vaxtabæturnar, leggur á kílómetragjald ef þeir eru á rafmagnsbíl og hækkar bensínið ef þau eru á bensínbíl og svo ætlar Sigurður Ingi að koma og rukka þau fara í gegnum göngin,“ segir Gunnar Smári.
