Í tilkynningu á vef Vatnajökulsþjóðgarðs segir að fernan hafi að mestu leiti verið grafin ofan í mold og að aðeins lítill hluti hennar hafi staðið upp úr jörðinni. Útlit fernunnar er ansi nostalgískt enda orðið ansi langt síðan skipt var um útlit Svalaferna.
„Við nánari skoðun kom í ljós að fernan hafði að öllum líkindum tilheyrt ferðlangi sem var á leið um skógarstíg Austurbrekkna fyrir 36 árum. „Best fyrir“ dagsetning var frá október 1986. Litirnir á fernunni voru enn nokkuð skýrir og drykkjarrörið var alveg heilt,“ segir í tilkynningunni.
Starfsmenn þjóðgarðsins minna á að nú er átakið Plastlaus september í gangi og því sé þessi fundur áminning um áhrif manna á umhverfi þeirra.
„Hvað viljum við sjá á göngustígum framtíðarinnar? Hvað getum við gert núna til að koma í veg fyrir niðurgrafnar svalafernur á skógarstígum eftir 40 ár?“ segir í tilkynningunni.