Ráðgjafi Selenskís sagði á Twitter nú fyrir skömmu að forsetinn myndi segja frá þessum „góðu fréttum“ en enn sem komið er hefur ekkert opinbert verið sagt um þessa nýju gagnsókn, hvorki frá Úkraínumönnum né Rússum.
Færslur á samfélagsmiðlum hafa sýnt úkraínska hermenn á götum bæjarins Balakalia í Kharkív en sá bær hefur verið í haldi Rússa um nokkuð skeið.
Tonight there is going to be a great news from President Zelenskyy on counteroffensive operation in Kharkiv region.
— Serhiy Leshchenko (@Leshchenkos) September 6, 2022
Undanfarnar vikur hafa Úkraínumenn einnig sótt fram gegn Rússum í Kherson-héraði í suðurhluta landsins. Þar hafa Úkraínumenn frelsað nokkra bæi en þeir reyna að einangra og króa af rússneska hermenn á norðurbakka Dnipro.
Úkraínumenn hafa notað stórskotalið og loftárásir til að grafa undan birgðaneti Rússa í suðri og samhliða því hafa þeir beitt rússneska hermenn í Kherson-héraði þrýstingi og reynt að þvinga þá til að hörfa.
Enn sem komið er, er óljóst hve umfangsmikil gagnsókn Úkraínumanna í Kharkív-héraði er.
Frá því Úkraínumenn lýstu því yfir fyrr í sumar að þeir ætluðu sér að reka Rússa frá Kherson-héraði hafa Rússar sent fjölda hermanna til þess héraðs. Þeir hermenn voru sendir frá víglínunum í austur- og norðurhluta landsins.
Sagt var frá því í síðustu viku að Úkraínumenn væru að undirbúa frekari gagnsóknir í fleiri héruðum en Kherson og að markmið Úkraínumanna væri að ná frumkvæðinu í átökunum við Rússa fyrir veturinn.
Sjá einnig: Árangurinn í suðri dýrkeyptur Úkraínumönnum
Það að hafa frumkvæðið í átökum felur í stuttu máli sagt í sér að stjórna framvindu mála. Andstæðingurinn þarf þá að bregðast við aðgerðum þínum og sækir síður fram. Að hafa frumkvæðið er gífurlega mikilvægt í átökum.
Þessi gagnsókn í norðri gæti verið til marks um að Úkraínumenn hafi frumkvæðið og Rússar séu farnir að bregðast við þeim.
Til að sjá grófa mynd af víglínunum í Úkraínu má smella hér til að sjá gagnvirkt kort.