Þetta kemur fram í yfirliti yfir tíðarfar ágústmánaðar á vef Veðurstofu Íslands.
Þar segir að meðalhiti í Reykjavík hafi verið 10,2 stig, 0,9 stigum undir meðaltali tímabilsins 1991-2020, 1,1 stiguu undir meðallagi síðustu tíu ára.
Á Akureyri var meðalhitinn 10,0 stig eða 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 0,9 stigum undir meðallagi undanfarinna tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 10,1 stig og á Höfn í Hornafirði var hann 10,2 stig.

„Ágúst var kaldur um allt land. Meðalhiti í ágúst var lægri en meðalhiti ágústmánaðar undanfarinn áratug á nánast öllum veðurstöðvum landsins,“ segir í færslunni.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,0 stig á Mánárbakka á Tjörnesi þann 30 ágúst. Það er jafnframt hæsti mældi hiti sumarsins. Fremur sjaldgæft er að hámarkshiti sumars mælist svo seint á árinu að því er fram kemur í færslunni.