Verðbólga síðustu tólf mánuði lækkaði um 0,2 prósentustig í ágúst og stendur nú í 9,7 prósent en margir höfðu spáð því að hún færi yfir tíu prósent, þar á meðal Seðlabankinn sem hafði áður spáð að verðbólgan færi upp í ellefu prósent fyrir lok ársins.
Til að bregðast við hefur Seðlabankinn gripið til vaxtahækkana og það sem af er ári hafa stýrivextir hækkað um 3,5 prósent. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fór yfir stöðuna í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagði aðgerðir farnar að hafa áhrif en það taki nokkra mánuði og allt upp undir hálft ár að sjá árangurinn.
„Við verðum að bregðast við til að halda stöðugleika í kerfinu. Það er alveg rétt að vaxtahækkanir eru biturt meðal og það er ekki með glöðu geði sem við erum að beita því, og þess vegna hefur þetta verið ákall verið frá Seðlabankanum til annarra aðila í samfélaginu að koma að þessu með okkur og hjálpa okkur með þetta verkefni,“ segir Ásgeir.
Möguleg þensla í hagkerfinu
Seðlabankinn hafi beitt ýmsum tækjum til að koma böndum á verðbólguna, til að mynda á fasteignamarkaði þar sem lántökuskilyrði hafa verið hert og aðgengi að verðtryggðum lánum verið takmarkað. Það hafi borið árangur þar sem merki séu um að markaðurinn sé farinn að kólna.
Mikil óvissa sé þó fram undan.
„Við óttumst það að við séum að lenda aftur í einhvers konar efnahagsþenslu sem að við þurfum að bregðast við. En ég bind samt vonir við það að verðbólga hafi náð hámarki, við séum að ná árangri, og að okkur heppnist að stýra þessu áfram,“ segir Ásgeir.
Skiptir mestu máli að ná sátt
Ísland hafi þrátt fyrir allt komið mun betur út en mörg önnur lönd en þó blasi við erfið staða í Evrópu. Að sögn Ásgeirs er ekki ólíklegt að Evrópa lendi í kreppu þegar líða fer í vetur sem geti haft áhrif hér heima.
Þannig þurfi allir að koma saman að borðinu, bæði á alþjóðavettvangi og ekki síst hér heima nú þegar kjaraviðræður eru í nánd.
„Það verður að koma til skilningur frá aðilum vinnumarkaðarins, líka ríkisvaldinu og að sama skapi frá atvinnulífinu. Við erum lítið land og það skiptir miklu máli að við náum sátt um hluti. Okkur hefur nú alltaf farnast best þannig, þannig höfum við náð niður verðbólgu með farsælum hætti, ef að það ríkir sameind sátt um það,“ segir Ásgeir.
Hægt er að hlussta á Sprengisand dagsins í heild sinni hér fyrir neðan.