Erlent starfsfólk gæti verið orðið allt að helmingi vinnuafls á Íslandi á næstu áratugum samkvæmt mati framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Þjóðin eldist og það vantar fleiri vinnandi hendur; náttúruleg fólksfjölgun dugar þar engan veginn.
Míkhaíl Gorbatsjov var borinn til grafar í Rússlandi dag en hann lést á þriðjudag, 91 árs að aldri. Fjöldi fólks safnaðist saman við Hús Verkalýðsins í Mosku þar sem útför fyrrum leiðtoga Sovétríkjanna fór fram og var sendiherra Íslands í Rússlandi meðal sendiherra sem vottuðu honum virðingu sína. Vladímír Pútín Rússlandsforseti var þó ekki viðstaddur en hann lagði blóm á kistuna á fimmtudag. Gorbatsjov var leiðtogi Sovétríkjanna á árunum 1985 til 1991 og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1990 fyrir sinn þátt í að draga úr spennu milli austurs og vesturs. Hann var virtur víða um heim, einna helst á Vesturlöndum, en margir í heimalandinu kenndu honum aftur á móti um fall Sovétríkjanna.
Það gæti stefnt í metár í komum skemmtiferðaskipa og búist er við enn tíðari skipakomum á næsta ári. Kaupmenn í miðbænum segja farþegana verðmæta kúnna.
Lögreglan, þar á meðal sérsveitarmenn, fóru á vettvang til að hafa afskipti af mönnum við Hagkaup í Skeifunni á fimmta tímanum í dag. Aðilar máls höfðu tekist á en talið er að einn þeirra eða fleiri hafi verið í annarlegu ástandi. Töluverður viðbúnaður var á svæðinu enda voru samkvæmt upplýsingum fréttastofu barefli í spilinu, þótt ekki hafi það verið hnífar eða byssur. Einn var fluttur á lögreglustöð til viðræðna eftir atburðarásina en málið er í rannsókn hjá lögreglu.
Það á ekki að vera leiðinlegt að taka upp rófur og þannig er það alls ekki hjá rófubónda í Árborg því þar er dansað og sungið um leið og unnið er með rófurnar. Magnús Hlynur kíkti á stemminguna í rófugarðinum.
Það er sannkölluð hátíðarstemmning í Reykjanesbæ þar sem Ljósahátíð nær hámarki í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem hátíðin fer fram en henni var aflýst síðustu tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins. Við verðum þar í beinni.