Forsætisráðherrann Antóníó Costa sagði að andlát konunnar hefði verið síðasta stráið sem leiddi til afsagna Temido en ráðherrann og stjórnvöld hafa sætt harðri gagnrýni vegna undirmönnunar á fæðingardeildum landsins.
Konan fór í hjartastopp þegar verið var að flytja hana á milli sjúkrahúsa, eftir að hafa verið neitað um innlögn á fæðingadeild. Barnið var tekið með keisaraskurði og komst lífs af.
Önnur svipuð tilvik hafa komið upp á síðustu mánuðum, meðal annars tvö þar sem börn létust eftir að mæður þeirra höfðu mátt þola langa bið eftir þjónust og verið fluttar á milli sjúkrahúsa.
Stjórnvöldum hefur reynst erfitt að fullmanna fæðingardeildir, sem hefur sumum hverjum verið lokað. Hefur verið rætt að leita utan landssteinanna eftir starfskröftum, ekki síst sérfræðingum í kven- og fæðingarlækningum.
Temido var almennt lofuð fyrir framgöngu sína í kórónuveirufaraldrinum og formaður portúgölsku læknasamtakanna sagði Temido hafa gert margt gott. Hún hefði einfaldlega sagt af sér þar sem hún hefði engin ráð á höndum til að leysa mönnunarvandann.