Hagstofa Íslands birti í dag nýjar tölur um vísitölu neysluverðs. Þar má sjá að í fyrsta sinn í rúmt ár hefur dregið úr ársverðbólgu eða um 0,2%. Verðbólgan fer úr 9,9% í 9,7% Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fagnar þessu.
„Ég held að þetta séu nú kannski svona fyrstu merki um það að við séum að ná tökum á þessum vanda. Við erum að sjá verðbólgu hjaðna á milli mánaða. Við erum að sjá að þessi mikla hækkun á fasteignaverði hún er að ganga niður og það er í samræmi við aðrar vísbendingar sem við höfum fengið á fasteignamarkaði að það sé að hægjast á markaðnum og að það sé að komast á jafnvægi. Það sem er mikilvægast er það að verðbólga án húsnæðis stendur í stað hér á milli mánaða eða sem sagt það er eiginlega engin mánaðarhækkun og hún er að lækka. Þannig að þetta eru svona fyrstu merki um árangur þó að þetta sé bara ein mánaðarmæling.“
Ásgeir segir mikilvægt að allir hjálpist nú að við að ná verðbólgunni niður.
„Líka þá bara ákall til annarra á þessu landi sem að bera ábyrgð hér í þessu samfélagi á því að halda stöðugleika að leggjast á árarnar með okkur. Ég er að tala um alla haghafa. Atvinnurekendur, þá sem setja verðið, vinnumarkaðsfélögin, ríkisstjórnina og svo framvegis. Það skiptir mjög miklu máli fyrir hag þjóðarinnar að við náum tökum á þessari verðbólgu og við þurfum ekki að beita þessu bitra meðali, sem vaxtahækkanir eru, meira heldur en við nauðsynlega þurfum.“
Ásgeir er nýkominn frá Bandaríkjunum þar sem hann sótti fund seðlabankastjóra flestra landa heimsins. Þar var aukin verðbólga um allan heim rædd og hvernig eigi að stöðva hana.
„Við erum nokkurn veginn sammála hvað við þurfum að gera. Seðlabankaheimurinn er sammála. Það getur enginn haldið því fram að það sem við erum að gera á Íslandi sé einhver sérviska eða einhver svona afdalaháttur. Seðlabanki Íslands náttúrulega var fyrstur af vestrænum seðlabönkum til þess að hækka vexti og bregðast við. Við erum að ná árangri í þeirri baráttu sem við höfum verið að standa í svo það er jákvætt í rauninni hvað við höfum verið snemma í því að bregðast við þeim vanda sem að er til staðar. Margir aðrir seðlabankar hafa verið seinni til að bregðast við en það er alveg skýrt að þeir ætla að gera það. Þannig að eftir því sem var rætt á þessum fundi þá er mjög líkleglegt að við sjáum vaxtahækkanir framundan hjá bönkunum úti.“