Í viðtali sem Fréttablaðið birti í dag við Otta Rafn Sigmarsson, formann Landsbjargar, sagði hann að björgunarsveitir væru komnar út fyrir verksvið sitt með gæslu á dagvinnutíma við gosstöðvarnar. Hætt væri við því að gengið yrði á úthald sjálfboðaliða fyrir haustið.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir lausn í sjónmáli.
„Það er nú til tilbúinn samningur, samkomulag við Umhverfisstofnun, um að það komi landverðir núna fljótlega inn á svæðið, með svipuðum hætti og var í fyrra. Það reyndist mjög vel að fá þessa góðu landverði til aðstoðar. Þeir sinna semsagt leiðbeiningum og aðstoð við ferðamenn á svæðinu, umferðarstýringu að einhverju leyti og slíku. Þeir verða væntanlega komnir mjög fljótlega til starfa og það léttir á björgunarsveitunum,“ segir Fannar.

Fjölmennt við teikniborðið
Hann á þá von á því að landeigendur muni koma að málinu, til að mynda þeim hluta þess sem snýr að bílastæðum á svæðinu. Eins hafi Almannavarnir tekið málið fyrir.
„Og það er verið að vinna að því þar að reyna einhvern veginn að létta með myndarlegum hætti á störfum björgunarsveitarinnar, þannig að þeir þurfi ekki að sinna þessari leiðsögn og öðru slíku, sem ekki heyrir beint undir björgunarstörf.“
Hundruð sjálfboðaliða í á fjórða tug björgunarsveita víða af á landinu hafa tekið þátt í aðgerðum á svæðinu.
„En það er ekki hægt að ætlast til þess ef þetta stendur nú mánuðum saman eins og síðast, að björgunarsveitir verði þarna til taks öllum stundum, nema að fá til þess góða aðstoð. En þeir eru reiðubúnir til þess að koma til aðstoðar og hjálpar ef þörf er á í einhverjum slíkum aðstæðum.
Allt fullt
Fannar segir ferðamannastrauminn í gegnum Grindavíkurbæ mikinn.
„Það er nú talið í nokkuð mörg þúsund manns sem koma á hverjum einasta degi, og allir fara nú í gegnum Grindavík. Þannig að það er líflegt hjá okkur í bænum.“
Tjaldsvæðið í bænum sé yfirfullt, sem og önnur gistiaðstaða.
„Gríðarleg landkynning fyrir okkur að fá þetta og vonandi nýtur þjóðfélagið, samfélagið og efnahagurinn okkar góðs af þessu öllu saman. Við höfum trú á því,“ segir Fannar.