Anton hefur fundið vel fyrir matareitruninni sem hann segist sennilega hafa fengið eftir að hafa borðað skemmt sushi í byrjun vikunnar. Hann er nú staddur í æfingabúðum í Barcelona en heldur brátt til Rómar þar sem EM fer fram.
„Hiti, hausverkur og algjört orkuleysi. Ég var algjörlega sleginn niður,“ segir Anton í samtali við Vísi, aðspurður um einkenni magaeitrunarinnar sem valdið hefur tíðum klósettferðum síðustu daga.
„Það er ekki vitað hvar ég fékk þetta en mig grunar að þetta sé sushi sem ég borðaði. Maginn er enn þá í smá rugli og enn að ná sér en ég er samt allur að braggast sem betur fer. Það kom á óvart hvað ég varð veikur,“ segir Anton.
Sleppir mögulega fyrri greininni
Eftir að Anton náði 6. sæti í 200 metra bringusundi í júní, þar sem hann var fremstur í úrslitasundinu þegar 50 metrar voru eftir, þótti hann líklegur til enn frekari afreka á EM en nú er spurning hve mikil áhrif matareitrunin mun hafa.
Anton er skráður til keppni í tveimur greinum. Keppni í 100 metra bringusundi hefst 11. ágúst, eftir slétta viku, en undanrásir í 200 metra bringusundi eru laugardaginn 13. ágúst.
„Ég set enn þá stefnuna að keppa á EM en það fer eftir því hvernig næstu dagar ganga hvort ég keppi í bæði 100 og 200. Ef ég sleppi 100 fæ ég tvo aukadaga til að ná mér,“ segir Anton.