Guðríður greindi frá því í bloggfærslu í dag að dagurinn hefði verið hennar seinasti í starfi hjá Birtíngi en hún starfaði að mestu við prófarkalestur seinustu árin.
Aðspurð hvernig starfslokin komu til segir hún að henni hafi boðist að starfa lengur en það hefði kostað aukna vinnu, hún hefði einfaldlega nóg að gera. Hún segist hafa ákveðið fyrir fjórum árum að fara að passa upp á álagið.
„Ég er að verða sextíu og fjögurra þannig það eru bara einhver ár í starfslok og ég er bara alveg til í að vera heima með kaffibollann minn og horfa út á sjóinn og blogga,“ segir Guðríður.
Hún hafi annað slagið verið í því að kenna útlendingum íslensku hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands og verið að vinna í prófarkalestri fyrir bókaforlög. „Ég hef sko þurft að bíta af mér verkefni.“
Hún segist vera ung og fjörug enn og segir frá því að henni hafi verið gefinn afsláttur í strætó um daginn. Þegar hún hafi spurt bílstjórann hvernig stæði á því hafi hann tjáð henni að eldri en sextíu og sjö ára fengju afslátt. „Ef ég hefði ekki ekki verið að flýta mér í bæinn, hann fattaði ekki hvað líf hans hékk á bláþræði,“ segir Guðríður og hlær.