Þetta er önnur hitabylgjan í suðvesturhluta Evrópu á innan við mánuði en fleiri lönd glíma nú við ofsahita. Hitamet hafa fallið hver á fætur öðru og fjöldi skógarelda geisa í Frakklandi, Portúgal, á Grikklandi og Spáni.
Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín og í Portúgal og á Spáni hafa að minnsta kosti þúsund manna látist vegna hitans undanfarna daga.
„Þegar að ég fór að heiman þá loguðu eldar víða í landinu mínu. Meira en 20 þúsund hektarar hafa brunnið á síðustu þremur dögum,“ sagði Teresa Ribera, loftslags- og umhverfismálaráðherra Spánar, á loftslagsráðstefnu í Berlín í dag.
„Nú geisa fleiri en 36 virkir skógareldar af fyrstu gráðu í landinu. Í tíu daga hefur hiti að degi til verið yfir 40 stig,“ sagði hún enn fremur.
Norðar í álfunni hefur hitabylgjan einnig gert vart við sig. Rauð hitaviðvörun tók í fyrsta sinn gildi á Bretlandseyjum í dag og gildir út morgundaginn.

Yfirvöld beindu því til fólks að vera sem minnst á ferðinni. Þá hafði hitinn gríðarleg áhrif á samgöngur en á Luton flugvelli var öllum ferðum aflýst þar sem malbik á flugbrautin.
António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var ómyrkur í máli á loftlagsráðstefnunni í Berlín.
„Met féllu í styrk gróðurhúsalofttegunda, hæð yfirborðs sjávar og sjávarhita. Helmingur mannkyns býr á hættusvæðum þar sem hamfaraflóð, þurrkar, óðastormar og skógareldar geisa. Engin þjóð fer varhluta af þessu,“ sagði Guterres.
„Valið er okkar. Sameiginlegt átak eða sameiginlegt sjálfsmorð. Þetta er í okkar höndum.“