Fótbolti

Putellas líklega frá út næsta tímabil: HM í hættu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexia Putellas fyrir leik Spánverja gegn Finnum.
Alexia Putellas fyrir leik Spánverja gegn Finnum. Jose Breton/Getty Images

Alexia Putellas, ein besta knattspyrnukona í heimi, sleit krossband í hné rétt fyrir fyrsta leik spænska landsliðsina á Evrópumótinu sem nú fer fram í Englandi. Nú hefur verið staðfest að um sé að ræða aftara krossband í vinstra hné.

Hin 28 ára gamla Putellas vann Gullknöttinn fyrr á þessu ári og hefur verið hreint út sagt stórkostleg undanfarin misseri fyrir frábært lið Barcelona. Spánn leyfði sér líka að dreyma en með Putellas á miðjunni er allt hægt. 

Hún meiddist hins vegar illa á hné á síðustu æfingu spænska landsliðsins áður en mótið hófst. Stuttu seinna var staðfest að krossband í hné hefði slitnað og nú hefur Barcelona tilkynnt að um aftara krossband í vinstri fæti sé slitið. 

Telur Barcelona að Putellas verði frá nær allt næsta tímabil sem setur heimsmeistaramótið sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi sumarið 2023 einnig í hættu. Það gæti því farið svo að meiðslin muni halda Putellas frá keppni á EM í sumar og HM næsta sumar. 

Spánn hefur ekki verið sannfærandi á EM til þessa. Eftir að lenda undir gegn Finnlandi kom liðið til baka og vann 4-1 sigur en tapaði svo örugglega gegn Þýskalandi í síðasta leik, lokatölur 2-0. Spánn og Danmörk mætast því í hreinum úrslitaleik um sæti í 8-liða úrslitum þann 16. júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×