Svava og Óskar Ófeigur spjölluðu við Guðrúnu Arnardóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur fyrir utan kastalann í Crewe og eftirvæntingin fyrir fyrsta leik liðsins á sunnudaginn gegn Belgíu er gífurleg.
„Það er kominn fiðringur að byrja þetta. Við erum búnar að horfa á fyrstu tvo leikina í mótinu og sjá stemninguna þar, þannig maður er bara spenntur að fá að byrja sjálfur,“ sagði Guðrún sem er að fara að spila á sínu fyrsta stórmóti með landsliðinu ásamt Karólínu Leu, sem er einnig í fyrsta skipti á stórmóti.
„Það er búinn að vera draumur margra að fara á stórmót þannig það er gríðarlega gaman að vera loksins komin,“ sagði Karólína sem virðist þó ekki vera jafn hrifin af kastalanum og restin.
„Þetta er smá gamalt og æfingasvæðið líka, það er smá fjósalykt af þessu en maður getur samt ekki kvartað,“ bætti Karólína við með stórt bros á vör.
Innslagið í heild má sjá spilaranum hér að neðan.