Ummæli Horschel koma í kjölfarið á því að 16 kylfingar á Evrópumótaröðinni DP World Tour fengu refsingar fyrir að taka þátt í fyrsta móti LIV-mótaraðarinnar. Refsingarnar fólu í sér sektir og keppnisbann frá þremur mótum á vegum Evrópumótaraðarinnar, þar á meðal Opna skoska mótinu sem hefst á morgun.
Breski kylfingurinn Ian Poulter var meðal þeirra sem hlaut refsingu, en hann hefur hins vegar fengið leyfi til að keppa á Opna skoska eftir að hafa unnið mál gegn Evrópumótaröðinni.
„Þeir ákváðu að spila á þessari mótaröð og þeir ættu að halda sig þar,“ sagði Horschel um þá kylfinga sem hlutu refsingu.
„Þeir ættu ekki að koma aftur á Evrópumótaröðina eða PGA-mótaröðina.“
„Það að segja að þeir hafi viljað styðja Evrópumótaröðina eða PGA-mótaröðina í framtíðinni er algjörlega fáránlegt finnst mér. Það er óheppilegt að þeir hafi skilið svona við þetta, en þetta er það sem þeir vildu. Látið okkur í friði í guðanna bænum.“
„Atburðir seinustu vikna hafa farið mikið í taugarnar á mér af því að það er fullt af kylfingum sem eru hræsnarar og lygarar og þeir eru ekki að segja allan sannleikan.“
„Ég get ekki lengur verið diplómatískur lengur eins og ég hef verið hingað til,“ sagði Horschel pirraður að lokum.