Fótbolti

Telja sigur­líkur Ís­lands vera tæp þrjú prósent

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslensku stelpurnar láta spár lítið á sig fá.
Íslensku stelpurnar láta spár lítið á sig fá. Vísir/Hulda Margrét

Tölfræðivefurinn Opta mun halda utan um alla tölfræði Evrópumóts kvenna í fótbolta sem hefst á morgun með leik Englands og Austurríkis. Þá er vefurinn búinn að taka saman sigurlíkur hverrar þjóðar fyrir sig en Ísland er í 9. sæti af þeim sextán þjóðum sem taka þátt.

Á vef Opta má finna margvíslegt upphitunarefni fyrir EM en þar ber helst að nefna spálíkan vefsins. Þar má sjá hverjar líkurnar eru að Ísland endi í fyrsta, öðru, þriðja eða fjórða sæti D-riðils og þá má sjá hversu líklegt er að Ísland verði Evrópumeistari.

Líkurnar á að Ísland vinni D-riðil eru 13,2 prósent. Líkurnar á öðru sæti – og þar með sæti í átta liða úrslitum – eru 22,1 prósent en meiri líkur en minni eru að Ísland sitji eftir með sárt ennið. Það eru 28,9 prósent líkur að íslensku stelpurnar endi í þriðja sæti og svo 35,8 prósent líkur að Ísland endi á botni riðilsins.

Það eru 35,3 prósent líkur á að Ísland komist í 8-liða úrslit en aðeins 2,8 prósent líkur að Ísland fari alla leið og verði Evrópumeistari. Frakkland er líklegast í D-riðli með 18,5 prósent sigurlíkur. Þar á eftir kemur Belgía með 4,5 prósent og Ítalía með 2,9 prósent. 

Samkvæmt spánni er England líklegast til afreka en það eru 19,3 prósent líkur á að heimaþjóðin endi sem Evrópumeistari. Þar á eftir koma Frakkar, Svíar og Þjóðverjar.

Aðeins eru 0,3 prósent líkur að Norður-Írland verði Evrópumeistari og þá vekur athygli að bæði Danmörk og Noregur eru fyrir neðan Ísland er varðar líkur á sigri í mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×