Haraldur Franklín Magnús varð fyrstur íslenskra karla til að komast inn á The Open þegar hann lenti í öðru sæti á úrtökumóti árið 2018. Það þarf hins vegar allt að ganga upp hjá honum á lokakaflanum í ár til að hann eigi raunhæfa möguleika á að komast áfram.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson er hins vegar í betri stöðu nú þegar verið er að spila seinni hringinn af tveimur.
Lokaúrtökumótið fer fram á fjórum völlum samtímis og komast efstu fjórir á hverjum velli áfram á The Open sem fram fer um miðjan júlí. Guðmundur og Haraldur keppa á mótinu á The Prince's vellinum á Englandi.
Guðmundur var, þegar þetta er skrifað, að fá örn á áttundu holu og vinna sig upp í 3. sæti en hann er þó jafn sjö öðrum kylfingum þar. Þeir eru samtals á -2 höggum hver en Guðmundur lék fyrri hring mótsins á pari. Gangi vel hjá honum síðustu tíu holurnar á Guðmundur mjög raunhæfa möguleika á að spila á St. Andrews vellinum þegar The Open fer þar fram.
Haraldur er samtals á +1 höggi og er í 19. sæti þegar hann á níu holur eftir. Alls eru 288 kylfingar á völlunum fjórum að keppa um sætin sextán sem í boði eru. Gripið er til bráðabana ef þess þarf til að skera úr um það hverjir enda í fjórum efstu sætunum á hverjum velli.