The Athletic fór í saumana á ferli Grétars Rafns og hvað hann kemur með að borðinu hjá Tottenham. Hinum fertuga Grétari Rafni er lýst sem beinskeyttum einstakling sem hefur óþol fyrir kjaftæði og þá tekur hann svo fast í spaðann á mönnum að þeir eru við það að handarbrotna.
Sagan segir að leikmenn Everton hafi fagnað er ekki mátti lengur takast í hendur sökum kórónuveirunnar.
Why are #THFC appointing someone who was so senior in Everton's recruitment team?
— Charlie Eccleshare (@CDEccleshare) June 24, 2022
Reaction to the appointment was not entirely positive
But going bit deeper + looking at Everton situation in context, you can see why Spurs are so excited about their hirehttps://t.co/ufQxE83G5v
Grétar Rafn starfaði hjá félaginu eftir að ná aðdáunarverðum árangri sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Fleetwood Town. Þó það hafi mikið gengið á hjá Everton þá virðist orðspor Grétars Rafns ekki hafa borið skaða af.
Hann er nú mættur til Tottenham eftir stutt stopp hjá KSÍ og þó um nýja stöðu sé að ræða hjá félaginu þá má segja að Grétar Rafn verði hálfgerður aðstoðarmaður Fabio Paratici, yfirmanns knattspyrnumála, hjá félaginu.
Hann hefur störf 1. júlí næstkomandi og má Tottenham búast við manni sem mun alltaf segja skoðanir sínar, sama þó þær gætu sært einhvern. Eftir að ákveðið var að búa til nýtt stöðugildi þá voru forráðamenn Tottenham fljótir að sækjast eftir undirskrift Grétars Rafns.
Mun hann koma að leikmannamálum félagsins sem og íþróttavísindum tengdum aðalliði og akademíu þess.
„Hann er maður sem þú getur treyst í einu öllu. Hann er til í að vinna dag og nótt,“ sagði Marcel Brands, fyrrum yfirmaður knattspyrnumála hjá Everton, er Athletic ræddi við hann um Grétar Rafn.
Einnig er tekið fram að Grétar Rafn deili sömu hugmyndum og bæði Paratici og Antonio Conte er kemur að þeim leikmönnum sem Tottenham ætti að fá í sínar raðir.
Tottenham Hotspur endaði í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og tekur því þátt í Meistaradeild Evrópu á komandi leiktíð. Liðið hefur þegar sótt markvörðinn Fraser Forster, Ivan Perišić og Yves Bissouma.