Fótbolti

Rice sakaði dómara um spillingu | Fær tveggja leikja bann

Atli Arason skrifar
Declan Rice, leikmaður West Ham.
Declan Rice, leikmaður West Ham. Getty/James Williamson

Declan Rice, leikmaður West Ham, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann frá Evrópuleikjum af knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.

Rice sakaði dómarann Jesús Manzano um spillingu og að hafa þegið mútufé þegar West Ham datt úr leik í undanúrslitum Sambandsdeildar Evrópu gegn Eintracht Frankfurt í síðasta mánuði.

Frankfurt vann einvígið samanlagt 3-1. Í síðari leiknum fengu bæði Aaron Cresswell og David Moyes hjá West Ham rauð spjöld. Frankfurt vann seinni leikinn 1-0 en í leikmannagöngunum eftir leik hljóp Rice upp að dómaranum og hraunaði yfir hann.

„Dómari, þetta var hræðilegt. Þetta var hræðilegt í allt kvöld, svo slakur. Hvernig gastu verið svona slakur? Í allri hreinskilni þá hefur pottþétt einhver borgað þér. Fjandans spilling,“ sagði Rice við dómarann, en ummælin náðust á upptöku og fóru í dreifingu á netinu.

West Ham þarf að fara í gegnum tveggja leikja umspil í ágúst til að fá sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar á næsta tímabili og Rice missir því af þeim leikjum. Leikmaðurinn hefur verið orðaður við brottför frá West Ham í sumar en fari svo að hann yfirgefi West Ham mun leikbannið fylgja honum yfir í aðrar Evrópukeppnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×