Sport

Anton tíu sekúndubrotum frá því að komast áfram

Valur Páll Eiríksson skrifar
Anton Sveinn McKee er greinilega í afar góðum gír nú þegar styttist í heimsmeistaramótið.
Anton Sveinn McKee er greinilega í afar góðum gír nú þegar styttist í heimsmeistaramótið.

Anton Sveinn McKee var grátlega nærri því að komast í undanúrslit í 100 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Búdapest í morgun. Anton verður varamaður fyrir undanúrslitin, skyldi einhver forfallast.

Anton Sveinn var í sjöunda undanriðli í morgun og lenti þar í sjöunda sæti. Hann synti metrana hundrað á einni mínútu og 80 hundraðshlutum úr sekúndu (1:00,80). Það dugði til 17. sætis og missti hann því naumlega af því að vera á meðal 16 sundmanna sem keppa í undanúrslitum seinni partinn í dag.

Sextándi, og síðasti maður inn í undanúrslitin, var Ísraelinn Kristian Pitshugin sem synti á einni mínútu og 70 hundraðshlutum úr sekúndu (1:00,70). Hann var því aðeins 10 sekúndubrotum sneggri en Anton í bakkann og dugði það til að komast áfram.

Anton var jafn Pólverjanum Dawid Wiekiera, sem náði sama tíma, og verða þeir varamenn fyrir undanúrslitin ef einhver þeirra sem þangað komst skyldi forfallast.

Íslandsmet Antons í greininni er 01:00,32 sem hann setti í Gwangju í Suður-Kóreu 2019 og var hann því 48 hundraðshlutum úr sekúndu frá því.

Hollendingurinn Arno Kamminga synti best í greininni í morgun er hann fór 100 metrana á 58,69 sekúndum.

Anton Sveinn fer næst í laugina á miðvikudag þegar hann keppir í 50 metra bringusundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×