Lilja fór sem lánsmaður til Lugi í janúar en hún hafði þá leikið ellefu leiki fyrir Val og skorað í þeim 26 mörk. Möguleiki var á því að framlengja samninginn við Lugi í sumar um tvö ár en Lilja hefur frekar ákveðið að koma heim og klára nám.
„Það var frábær reynsla að fara til Lugi þó þetta hafi verið bara hálft tímabil. Ég vil koma heim og klára námið og stefni svo á að fara aftur út í atvinnumennsku,” er haft eftir Lilju í tilkynningu Vals.
Ásdís Þóra Ágústdóttir, eldri systir Lilju, verður áfram með Lugi en hún er að jafna sig á löngum og erfiðum meiðslum. Báðar eru þær dætur Ágústs Þórs Jóhannssonar, þjálfara kvennaliðs Vals.