Þetta var þriðji leikur liðanna í úrslitaeinvíginu, en heimamenn í Kadetten höfðu unnið fyrstu tvo og voru því með pálman í höndunum fyrir leik dagsins.
Jafnræði var með liðunum lengst af í fyrri hálfleik og staðan var jöfn, 9-9, eftir rúmlega tuttugu mínútna leik. Heimamenn í Kadetten náðu þá góðu áhlaupi á lokamínútunum og skoruðu sjö af seinustu átta mörkum hálfleiksins. Staðan var því 16-10 þegar gengið var til búningsherbergja.
Gestirnir söxuðu hægt og bítandi á forskot Kadetten í síðari hálfleik, en náðu þó aldrei að ógna forskoti þeirra að viti. Fór það því svo að lokum að Aðalsteinn og lærisveinar hans fögnuðu svissneska meistaratitlinum eftir þriggja marka sigur, 29-26.