Hermann og Guðjón enduðu haus í haus eftir að þjálfarinn tók Guðjón af leikvelli. Einhver orð voru sögð og Hermann setti því Guðjón í straff eftir uppákomuna.
„Hann fór í viku straff og svo munum við tala saman og ganga frá þessum málum,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, þegar leitast var eftir viðbrögðum hans um fjarveru Guðjóns Péturs í síðustu tveimur leikjum.
Hermann var mættur strax til viðtals eftir leikslok gegn Stjörnunni en hann hefur fengið gagnrýni úr ýmsum áttum í vikunni fyrir að mæta ekki í viðtöl eftir leiki. Hermann segir þetta rangt og byggt á misskilningi.
„Þetta var bara einn leikur,“ svaraði Hermann og hló. „Myndatökumaðurinn var búinn að tala við mig fyrir leik og hann sagðist bara vera einn á leiknum. Það má alveg reyna að búa til eitthvað úr þessu en við erum í toppmálum.“