Valur og Tindastóll mættust í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta þar sem Valsmenn tryggðu sér titilinn í fyrsta sinn í 39 ár. Uppselt var á leikinn og gestir sögulega duglegir að svala þorstanum þetta eftirminnilega kvöld.
„Þessi fjögur ár sem við höfum verið með Fjósið hef ég ekki upplifað annað eins. Þetta er lang-, lang-, langstærsti dagur í sögu Fjóssins enda 2.200 manns á svæðinu. Það kláraðist allt,“ segir Gunnar en hann ræddi við Andra Má Eggertsson í gærkvöld eftir að hafa undirbúið næstu törn, vegna úrslitaeinvíganna í handboltanum.

„Það fóru hérna á þriðja tug kúta, og þúsund dósir, og það var eiginlega ekki til dropi á Hlíðarenda þegar ég fór heim um nóttina. Það var bara allt búið,“ segir Gunnar um miðvikudagskvöldið á meðan að stjórnmálamaðurinn Brynjar Níelsson krækti sér í einn kaldan.
„Tindastólsmenn eiga þvílíkt hrós skilið“
Gleðin var við völd fram á nótt í Fjósinu þar sem bæði Valsarar og Skagfirðingar nutu lífsins.
„Þegar leikmennirnir komu hérna inn að fagna þá var þvílíkt hoppað og dansað hérna, og svo mikil gleði. Snobbið var að vera inni í eldhúsi að tala. Það var snobbsvæðið. Finnur og Jón Arnór og þeir voru þar að kjafta.
Tindastólsmenn eiga þvílíkt hrós skilið. Þeir voru svo flottir. Fögnuðu okkar Íslandsmeistaratitli, klöppuðu fyrir okkur, tóku til eftir sig, komu inn í Fjós eftir leik og fögnuðu og óskuðu okkur til hamingju,“ segir Gunnar sem mun eflaust einnig hafa í nægu að snúast í kringum úrslitaeinvígin í handboltanum. Þar léku Valsmenn gegn ÍBV í gærkvöld og Valskonur hefja einvígi sitt við Fram í Safamýri í kvöld en eiga svo heimaleik á mánudagskvöld.