Þetta kemur fram á Akureyri.net, þar sem vísað er í tilkynningu frá oddvitum. Þar segir að á fundi oddvita flokkanna hafi verið rætt um áherslur allra og í ljós hafi komið að mikinn samhljóm mætti finna meðal fundarmanna í öllum helstu málum.
„Voru aðilar því sammála um að ástæða væri til þess að hefja formlegar viðræður þar sem áhersla verður lögð á farsæld barna, barnafjölskyldna, fólks í viðkvæmri stöðu og eldra fólks. Auk þess voru aðilar sammála um að leggja áherslu á umhverfis- og loftslagsmál, mannréttindi og velferð íbúa, öflugt skólastarf sem og metnaðarfull og fagleg skipulagsmál. Aðilar munu gefa sér góðan tíma til þess að vinna málefnasamning og skipta með sér verkum.“
Í gær var greint frá því að viðræðum Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og L-listans hefði verið slitið. Sagði bæjarfulltrúi L-listans við það tilefni að hinir flokkarnir tveir hefðu gerst brotlegir við heiðursmannasamkomulag á milli flokkanna, um að ganga ekki til viðræðna við aðra meðan flokkarnir þrír ræddu saman. Það hefðu þeir hins vegar gert með því að ræða við fulltrúa Samfylkingar og Miðflokks.