Gakpo hefur verið sterklega orðaður við bæði Arsenal og Liverpool að undanförnu en núna í vikunni var greint frá því að bæði Manchester liðin, City og United, væru að íhuga tilboð í vængmanninn upp á 30 milljónir punda.
„Það getur allt skeð í sumar,“ sagði Gakpo í viðtali við hollenska miðilinn De Telegraaf í gær.
Gakpo hefur leikið fjóra landsleiki fyrir Holland og skorað í þeim eitt mark. Leikmaðurinn er með auga á mögulegt sæti í HM hóp hollenska landsliðsins en heimsmeistaramótið fer fram í Katar í desember 2022.
„Það væri algjör synd ef ég færi eitthvað þar sem ég myndi ekki fá að spila og gæti þar af leiðandi misst af HM. Þetta er mér ofarlega í huga.“
Hollendingurinn hefur skorað 21 mark og lagt upp önnur 15 mörk í 47 leikjum í öllum keppnum fyrir PSV á tímabilinu og hefur vakið verðskuldaða athygli en leikmaðurinn kemur upp í gegnum unglingastarf PSV.
„Ég mun núna skoða alla valmöguleika og sjá til hvað er best fyrir mig. Að vera áfram hjá PSV er einn af þessum valmöguleikum,“ sagði Cody Gakpo.