„Auðvitað vil ég halda Cristiano hjá Man United. Hann hefur verið þessu félagi mjög mikilvægur,“ sagði Ten Hag við hollenska blaðamanninn Mike Verweij.
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð hins 37 ára gamla Ronaldo sem hefur þrátt fyrir háan aldur verið einn af fáum ljósum punktum á hörmulegri leiktíð Man Utd.
Ten Hag flaug til Englands í dag og hefur þegar hafið undirbúning fyrir næstu leiktíð. Það er ljóst að það verða gríðarlega breytingar á leikmannahópi liðsins sem og starfsliði en Ronaldo ætti að vera á sínum stað.
„Ronaldo er risastór vegna alls þess sem hann hefur sýnt á ferli sínum og hversu metnaðarfullur hann er,“ sagði Ten Hag einnig.
Ronaldo hefur skorað 24 mörk í 39 leikjum á leiktíðinni.