Gestirnir í Bayern voru löngu búnir að tryggja þýska deildarmeistaratitilinn og úrslit dagsins skiptu því kannski ekki svo miklu máli, en Robert Lewandowski skoraði annað mark Bayern í dag.
Pólski framherjinn er samningsbundinn þýska stórveldinu fram yfir næsta tímabil, en hann er sagður vilja komast burt í sumar og prófa eitthvað nýtt. Hasan Salihamidzic, yfirmaður knattspyrnumála hjá Bayern, staðfesti þær sögusagnir svo fyrr í dag.
Lewandowski mætti svo í viðtal eftir leik dagsins gegn Wolfsburg og þar sagði hann góðar líkur á því að þetta hafi verið hans seinasti leikur fyrir félagið.
„Það eru mjög góðar líkur á að þetta hafi verið minn seinasti leikur fyrir Bayern,“ sagði Pólverjinn í samtali við Viaplay eftir leik.
„Ég get ekki staðfest það hundrað prósent, en þetta gæti hafa verið minn seinasti leikur. Við viljum finna bestu lausnina fyrir mig og félagið.“
Robert Lewandowski to @viaplaysportpl: “It’s very possible that this was my last game for Bayern. I cannot say that at 100%, but it may have been [my last game]. We want to find the best solution for me and for the club”. 🚨 #FCBayern @iMiaSanMia pic.twitter.com/ofjrdL7fxw
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) May 14, 2022
Robert Lewandowski er orðinn 33 ára gamall og því gæti farið að síga á seinni hluta ferilsins hjá þessari miklu markamaskínu. Hann hefur verið í herbúðum Bayern frá árinu 2014 og í 253 deildarleikjum hefur hann skorað hvorki fleiri né færri en 238 mörk.