Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Rosengård, en Elísabet Gunnarsdóttir geymdi Emelíu Óskarsdóttir á bekknum hjá Kristianstad.
Sofie Bredgaard kom heimakonum í Rosengård í forystu þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum og staðan var því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.
Gestirnir í Kristianstad ógnuðu marki heimakvenna mikið í síðari hálfleik og þær uppskáru loksins mark á 89. mínútu þegar Delaney Baie Pridham kom boltanum yfir línuna eftir darraðardans í vítateignum.
Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli, en Rosengård er enn á toppi deildarinnar eftir leik dagsins. Liðið er með 18 stig eftir átta leiki og hefur enn ekki tapað leik. Kristianstad situr hins vegar í sjöunda sæti deildarinnar með 12 stig.