Forsætisráðherrann Jacinda Ardern greindi frá þessu fyrr í dag. Guardian segir frá því að áður hafi verið tilkynnt að opnað yrði fyrir ferðamenn í október næstkomandi en Ardern sagði að vegna stöðunnar í faraldrinum hafi verið ákveðið að flýta því fram til fyrsta dags ágústmánaðar.
Stjórnvöld í Nýja-Sjálandi vöktu athygli fyrir með hvaða hætti þau tóku á faraldrinum og þeirra hörðu aðgerða sem gripið var til. Aðeins hefur verið slakað á aðgerðum á landamærum síðustu mánuði og var í byrjun maí opnað fyrir ferðir annarra en Nýsjálendinga síðustu mánuði, meðal annars Ástrala og ferðamanna frá um sextíu ríkjum þar sem samningar eru í gildi um að ríkisborgarar megi dvelja í Nýja-Sjálandi í takmarkaðan tíma án sérstakrar vegabréfsáritunar. Slíkar ferðir hafa hins vegar verið háðar því að ferðamennirnir séu fullbólusettir og geti framvísað neikvæðu Covid-sýnis.
Nú stendur hins vegar til að slaka enn fremur á reglum og opna fyrir ferðir allra annarra ferðamanna til landsins. Telur Ardern ólíklegt að farið verði fram á neikvætt Covid-sýni við komu síðar í sumar. Sömuleiðis verða ferðir skemmtiferðaskipa til landsins aftur heimilar á sama tíma.
Ardern kynnti aðgerðirnar heiman frá sér í gegnum fjarfundarbúnað þar sem hún er í einangrun vegna kórónuveirusmits eiginmanns síns.