Það byrjaði að snjóa í nótt og þegar Akureyringar litu út um gluggana í morgun beið þeirra óvæntur gestur, alhvít jörð og snævi þakin tré, sem eru farin að kvikna til lífs að nýju eftir veturinn.
Snjórinn mun þó reyndar ekki staldra lengi við.
„Það hlýnar örugglega um eina til tvær gráður eftir því sem líður á daginn þannig að þetta tekur að mestu leyti upp en svo kólnar aftur í kvöld. Það ætti að taka að mestu leyti yfir daginn,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við Vísi.
Eftir tiltölulega snjólítinn vetur hefur vorið verið með ágætasta móti á Akureyri og því viðbúið að snjórinn hafi ekki verið neitt sérstaklega velkominn í nótt.
„Meðalhitinn frá páskum er búinn að vera vel yfir meðallagi. Það er alltaf erfitt þegar vorar svona snemma þá er svo erfitt þegar koma þessir köldu kaflar inn á milli,“ segir Óli Jón.

Það er frekari kuldi í kortunum næstu daga og það gæti snjóað meira á fimmtudaginn.
„Seinni hluti fimmtudags og fram á kvöld gæti kannski gefið mestu úrkomuna. Það er það kalt loft yfir landinu þá að það er ekkert ólíklegt að það verði slydda eða snjókoma,“ segir Óli Jón.

Um helgina horfir þó til betri tíðar.
„Já, það hlýnar ágætlega og svo hlýnar enn meira eftir helgi sýnist mér þannig að þetta er allt saman að bresta á.“