Elon Musk er ríkasti maður heims, metinn á 265 milljarða Bandaríkjadala. Meðal afreka þessa ríflega fimmtuga Suður Afríkumanns, er eignarhald og stjórnun á rafbílafyrirtækinu Teslu, stofnun og rekstur geimtúristabatteríisins SpaceX og svo á hann sjö börn. Yngsti sonurinn, X Æ A-12, fæddist 2020 og er í dag kallaður X svona til styttingar og vegna þess að nafnið reyndist óleyfilegt í Kaliforniu. Og nú ætlar Musk að kaupa Twitter - á 44 milljarða Bandaríkjadala - tæpa sex þúsund milljarða íslenskra króna. Og fólk um allan heim hefur áhyggjur af því - enda er Musk er ólíkindatól sem segir oft alls konar, en gerir svo eitthvað allt annað.

Hvíta húsið, Amnesty International og Evrópusambandið bregðast við
Frægt fólk tilkynnti í hrönnum að það ætlaði að hætta á Twitter og myllumerkið #quittwitter, eða hættum á twitter, trendaði. Amnesty International tvítaði tvö orð: Eitraður Twitter, eða Toxic Twitter, og Evrópusambandið varar nýja eigandann við að hann þurfi að fara eftir lögum. Musk segist ætla að útrýma gervireikningum á Twitter, leyfa alla orðræðu og banna engan - svo framarlega sem notendur séu raunverulegir.
„Hann hefur mjög takmarkaðan skilning á málfrelsi er mjög takmörkuð, eins og oft gerist hjá fólki í valdastöðu,“ segir David Greene mannréttindasérfræðingur í viðtali við fréttastofu AP. Ahmed Banafa, prófessor við Háskólann í San Jose tekur undir þetta og viðrar áhyggjur sínar af kaupunum. „Musk getur til að mynda ekki tekið því vel þegar fólk gagnrýnir ákveðnar vörur. Þetta á eftir að verða snúið fyrir hann þegar hann fer að reyna að réttlæta málfrelsi.
„Málfrelsi fyrir einum getur verið hatursorðræða fyrir öðrum.“
Jen Psaki, talskona Hvíta hússins, var í dag spurð út í afstöðu Joe Biden Bandaríkjaforseta til kaupanna. „Það skiptir engu máli hver á eða stjórnar Twitter, forsetinn hefur lengi haft áhyggjur af því gífurlega valdi sem felst í stórum samfélagsmiðlum. Þeir hafa gífurleg áhrif á daglegt líf fólks og það hefur löngum verið lögð áhersla á að stjórnendur miðlanna þurfi að axla ábyrgð á þeim mikla skaða sem þeir geti valdið.“