Gestirnir í Frankfurt tóku forystuna snemma gegn Börsungum þegar Filip Kostic skoraði fram hjá Marc-Andre ter Stegen af vítapunktinum strax á fjórðu mínútu.
Kostic var svo aftur á ferðinni rúmum hálftíma síðar þegar hann lagði upp mark fyrir Rafael Santos Borre og staðan var 0-2 í hálfleik.
Kostic var ekki hættur því hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark gestanna eftir stoðsendingu frá Daichi Kamada þegar rúmar tuttugu mínútur voru til leiksloka.
Brekkan var því orðin ansi brött fyrir Börsunga, en Sergio Busquets hélt að hann hefði lagað stöðuna fyrir liðið þegar hann kom boltanum í netið á 84. mínútu. Eftir skoðun myndbandsdómara kom þó í ljós að hann var rangstæður og markið því dæmt af.
Busquets kom boltanum þó löglega í netið í upphafi uppbótartímans og þar sem að níu mínútum var bætt við venjulegan leiktíma var enn smá von fyrir Börsunga.
Evan N'Dicka fékk sitt annað gula spjald í liði Frankfurt á tíundu mínútu uppbótartíma, og þar með rautt, þegar hann braut á Luuk de Jong innan vítateigs. Memphis Depay fór á punktinn og minnkaði muninn í 2-3, en þá var það orðið of seint.
Frankfurt er því á leið í undanúrslit Evrópudeildarinnar þar sem liðið mætir West Ham sem vann öruggan 3-0 sigur gegn Lyon í kvöld. Craig Dawson, Declan Rice og Jarrod Bowen sáu um markaskorun West Ham.
Fyrr í kvöld hafði RB Leipzig betur gegn Atalanta, 2-0, en Leipzig mætir annað hvort SC Braga eða Rangers, en þegar þetta er ritað er framlenging í gangi í þeim leik.