Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.
Helstu vendingar:
- Embættismenn í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna segja hersveitir Rússa sýna merki lítils baráttuanda. Rússneskir hermenn hafi litla trú á innrásinni sjálfri og þeir séu illa upplýstir um markmið hennar og hvernig gangi.
- Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir sigur á Rússum einu leiðina til að binda enda á stríðið í Úkraínu.
- Fjárútlát rússneska ríkisins til ríkismiðla hafa þrefaldast milli ára. Frá janúar til mars á þessu ári var 17,4 milljörðum rúblum varið til miðlanna en á sama tímabili í fyrra var upphæðin 5,4 milljarðar.
- Viðskipti Kína við Rússland jukust um 12 prósent í mars samanborið við mars árið 2021 og um 30 prósent á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við sama tímabil í fyrra. Vert er að benda á að viðskipti milli ríkjanna höfðu verið að aukast áður en Rússar réðust inn í Úkraínu.
- Hermálayfirvöld í Bandaríkjunum munu funda með átta stærstu hergagnaframleiðendum landsins í dag til að ræða getu þeirra til að koma til móts við vopnaþörf Úkraínumanna ef átökin í landinu dragast í einhver ár.
- Stjórnvöld vestanhafs munu tilkynna um nýja vopnasendingu í dag, sem metin er á allt að 750 milljónir Bandaríkjadala.
- Forsetar Póllands, Eistlands, Léttlands og Litháen eru á leið til Kænugarðs, þar sem þeir munu funda með Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta.
- Gervihnattamyndir benda til þess að liðsöfnun fari nú fram á að minnsta kosti þremur stöðum við landamærin í austurhluta Úkraínu. Þá virðist hersveitir einnig undirbúa sókn frá Kherson.
- Fleiri en 400 lík hafa fundist í Bucha og leit er ekki lokið.
