„Það eina sem skiptir máli til að halda okkur á toppnum eru unglingalandsliðin,“ bætti Gaupi við.
Ungmennalandsliðið í handbolta tekur þátt í lokakeppni Evrópumótsins í sumar sem fram fer í Porto í Portúgal. Flestir leikmenn liðsins hafa öðlast miklar reynslu úr Olís-deild karla þar sem margir eru í lykilhlutverkum.
„Þetta er mjög skemmtilegur hópur sem við erum með í þessum árgangi,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari liðsins. „Margir strákar sem eru farnir að láta að sér kveða í deildinni og einn leikmaður sem er farinn í atvinnumennsku.“
Einar segir að reynsla þessara stráka úr Olís-deildinni hafi mikil áhrif.
„Ég held að hún hafi bara mjög mikil áhrif. Þessir strákar eru komnir langt og eru langflestir að æfa með meistaraflokksliðunum og eru margir þátttakendur í mjög stórum leikjum. Olís-deildin er bara þannig að flestir leikir eru jafnir og skemmtilegir þannig að við höfum ákveðið forskot á margar þjóðir hvað þetta varðar. Við erum að spila á háu „level-i“ hérna heima og þó að deildirnar úti séu margar hverjar sterkari þá kemur ekkert í staðinn fyrir reynslu af því að spila alvöru leiki.“
„Við erum með rosalega færa þjálfara í yngri flokkunum og gerum þetta betur að mörgu leiti en aðrar þjóðir. Barna- og unglingastarfið er í hæsta gæðaflokki og það sýnir sig í því hvað við eigum mikinn fjölda af leikmönnum út um allan heim og leikmönnum sem ná langt.“
Gaupi ræddi einnig við Róbert Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmann og núverandi unglingalandsliðsþjálfara, um stöðu íslenska unglingalandsliðsins, en innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.