Liðin áttust við í 8-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í gær og mætast aftur í Róm í næstu viku. Þau áttust einnig við í riðlakeppni keppninnar, þar sem Bodö/Glimt vann ótrúlegan 6-1 sigur áður en liðin gerðu svo 2-2 jafntefli í Róm.
Spennan á milli liðanna virðist hafa aukist með hverjum leiknum og upp úr sauð þegar liðin höfðu gengið af velli í Noregi í gærkvöld. Knutsen segir Santos, einn af aðstoðarmönnum José Mourinho þjálfara Roma, hafa tekið sig kverkataki.
Samkvæmt norskum fjölmiðlum er til myndband af atvikinu sem óskað hefur verið eftir að UEFA geri opinbert.
Knutsen sagði við fjölmiðla eftir leik í gærkvöld að Santos hefði raunar ítrekað hagað sér illa á meðan á leiknum stóð, og að yfir þessu hefði hann kvartað við fjórða dómara leiksins.
„Þetta náði hápunkti með líkamlegri árás á mig í leikmannagöngunum,“ sagði Knutsen við VG í dag.
„Vanalega er ég þannig gerður að vilja víkja mér undan. Að þessu sinni varð ég fyrir líkamlegri árás. Hann greip um hálsinn á mér og skellti mér utan í vegginn. Það var bara eðlilegt að ég reyndi að verja mig,“ sagði Knutsen en útskýrði ekki nánar hvernig hann hefði varið sig.
Lorenzo Pellegrini, fyrirliði Roma, sagði aftur á móti eftir leik að það hefði verið Knutsen sem réðist á Santos.
Lögreglan í Bodö segir ljóst að hún muni þurfa aðstoð vegna málsins, varðandi yfirheyrslur og sönnunargögn, þar sem að Santos sé portúgalskur ríkisborgari sem sé búsettur á Ítalíu.